Sport

Fylkir í leit að þjálfara

Nú þegar tímabilinu í Landsbankadeildinni er lokið er Fylkir eitt af þeim liðum sem þurfa að finna sér nýjan þjálfara fyrir næstu leiktíð. Ólafur Þórðarson, sem var fyrsti kostur Fylkismanna, hefur þegar framlengt samning sinn við Skagamenn og Eyjólfur Sverrisson, þjálfari U-21 árs landsliðs Íslands, hefur gefið Fylki afsvar. Fylkismenn eru þó með fleiri þjálfara á óskalistanum sínum og samkvæmt heimildum Fréttablaðsins mun Leifur Garðarsson vera efstur á þeim lista.Leifur hefur verið aðstoðarþjálfari Ólafs Jóhannessonar hjá Íslandsmeistaraliði FH og er þar að auki fyrrverandi körfuboltadómari en hann var einn besti dómari landsins áður en hann lagði flautuna á hilluna. Hann ákvað þess í stað að snúa sér alfarið að þjálfun og hefur verið farsæll í því starfi. Ekki er ólíklegt að Leifur skrifi undir samning nú strax í vikunni en viðræður standa þó enn yfir. Annar þjálfari sem kemur sterklega til greina sem arftaki Þorláks Árnasonar er Sigurður Jónsson, þjálfari Víkinga. Hann hefur náð góðum árangri í Víkinni og kom félaginu upp í úrvalsdeildina um helgina. Hann var einnig sterklega orðaður við þjálfarastöðuna hjá ÍA áður en ljóst varð að Ólafur ákvað að halda tryggð við Skagamenn. Sigurður mun hafa rætt við forráðamenn Fylkis en hann stendur einnig í viðræðum við Víkinga um áframhaldandi veru í starfi sínu þar.Þá er Magnús Gylfason einnig á lausu eftir að honum var vikið úr starfi hjá KR í sumar og hefur nafn hans einnig borið á góma hjá Fylkismönnum. Leifur vildi lítið segja þegar Fréttablaðið hafði samband við hann í gær en samningur hans við FH-inga rennur út núna í haust.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×