Sport

Fjölgum liðum og lengjum mótið

Á morgun, 17. september, fer lokaumferðin fram í Landsbankadeild karla í knattspyrnu, nákvæmlega fjórum mánuðum eftir að mótið hófst en þar verður fallbaráttan í hávegum. Þetta er líklega stysta knattspyrnuvertíð Evrópu, að baki henni liggur 7 til 8 mánaða undirbúningsvinna og finnst flestum nóg um. Í efstu deild karla hefur verið 10 liða deild síðan 1977 eða í 28 ár. Þær raddir verða sífellt háværari að nú þurfi bæði að fjölga liðum í efstu deildum knattspyrnunnar úr 10 í 12 og hefja Íslandsmótið fyrr. Á síðasta ársþingi KSÍ var samþykkt að setja á fót nefnd sem skyldi skoða hvað þyrfti að gera til þess að bæta ástand grasvalla svo hægt væri að lengja Íslandsmótið og þá helst að hefja það fyrr, eða mánaðamótin apríl/maí. Nefndin hefur aðallega skoðað þrjá þætti að sögn formanns hennar.  Í fyrsta lagi að setja hitalagnir undir grasvellina, í öðru lagi að setja gervigras á alla aðalvelli og í þriðja lagi að hafa náttúrulegt gras með ísaumuðu gervigrasi á slitflötum. Þessar tillögur þarf að vega og meta og eflaust misjafnt hvað hentar hverju liði og reyndar eru víða náttúrulegir grasvellir tilbúnir til notkunar í lok apríl og þar þyrfti lítið að gera. Kostnaður við endurbætur er misjafn og fellur vitanlega á bæjarfélögin en sum þeirra hafa lagt í töluverðan kostnað til þess að bæta áhorfendaaðstöðu, samkvæmt kröfu KSÍ, auk þess að byggja glæsilegar knattspyrnuhallir víða um land.   Þetta verður væntanlega helsta hitamálið á næsta ársþingi í febrúar 2006. Þar eiga aðildarfélögin í landinu síðasta orðið og ef þeim er virkilega alvara með því að fjölga í efstu deildum og lengja Íslandsmótið að þá ættu þau að láta slag standa og samþykkja slíkt á ársþinginu. Aðlögunartími gæti verið tvö ár og því gæti 12 liða deild hafist í lok apríl 2008.   Framkvæmdum við uppbyggingu Laugardalsvallar á að ljúka haustið 2006. Auk þess að stækka stúkuna ætlar KSÍ að byggja yfir sig kennslu- og fræðslumiðstöð ásamt skrifstofuhúsnæði sem var löngu sprungið. Það ætti því að fara vel um Eggert og félaga næsta haust. Þar sem þessi stóri áfangi er í höfn ætti að gefast góður tími til þess að skoða innri málefni knattspyrnuhreyfingarinnar í kjölfarið. Lenging Íslandsmótsins og fjölgun liða er nauðsynlegt skref fyrir framþróun fótboltans á Íslandi.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×