Erlent

Gætu þurft að fresta kosningunum

Stuðningsmenn Lýðhreyfingarinnar fyrir frelsun Palestínu efndu til mótmæla gegn spillingu í palestínsku heimastjórninni á sama tíma og félagar í al-Aqsa lögðu skrifstofur kjörstjórna undir sig.
Stuðningsmenn Lýðhreyfingarinnar fyrir frelsun Palestínu efndu til mótmæla gegn spillingu í palestínsku heimastjórninni á sama tíma og félagar í al-Aqsa lögðu skrifstofur kjörstjórna undir sig. MYND/AP

Vopnaðir menn réðust til inngöngu í nokkrar stærstu skrifstofur palestínsku yfirkjörstjórnarinnar í dag og ráku starfsmenn kjörstjórnar á dyr. Allri starfsemi var hætt í kjölfarið og óvíst hvenær hún hefst á ný.

Félagar í al-Aqsa hreyfingunni hleyptu skráningarferlinu fyrir palestínsku þingkosningarnar á næsta ári í uppnám í dag þegar þeir réðust inn í skráningarskrifstofur í Nablus, Gazaborg og Ramallah, ráku starfsmenn út og eyðilögðu tölvur.

Yfirkjörstjórn Palestínu ákvað í kjölfarið að stöðva alla starfsemi sína og skipa starfsmönnum ekki aftur til vinnu fyrr en palestínsk stjórnvöld gætu tryggt öryggi þeirra. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem vopnaðir menn leggja skrifstofur kjörstjórnarinnar undir sig eða trufla starfsemi hennar með einhverjum hætti.

Amar Duek, forseti kjörstjórnar, sagði eftir atburði dagsins að ef ekkert lát yrði á þessu væri hætt við að fresta yrði kosningunum sem fara eiga fram 25. janúar.

Deilur um framkvæmd kosninganna eru ekki síst innan Fatahhreyfingar Mahmouds Abbas forseta. Ungir framámenn sem vilja gömlu og að þeim finnst spilltu stjórnmálamennina burt unnu góða sigra í prófkjöri fyrir skemmstu en óttast að Abbas reyni að koma gömlu forystusveitinni ofarlega á framboðslistum á kostnað nýliðanna og þvert á niðurstöður prófkjörsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×