Viðskipti innlent

Spáir lækkun íbúðaverðs

Greiningardeild KB banka spáir því að íbúðaverð muni lækka ef vextir af húsnæðislánum hækka, eins og allt útlit er fyrir að verði. Vextir af óverðtryggðum og verðtryggðum skuldabréfum héldu áfram að hækka í gær og hafa hækkað nokkuð stöðugt frá útgáfu peningamála Seðlabankans 29. september og hækkunar stýrivaxta um leið. Verðtryggðir vextir eru komnir upp í 3,8 prósent og hafa ekki verið hærri í tæpt ár. Hækkun verðtryggðra langtímavaxta gæti svo leitt til hækkunar á vöxtum fasteignalána. KB banki telur að ef Íbúðalánasjóður heldur 60 punkta álagi á lánum sínum, muni vextir af húsnæðislánum hækka úr 4,15 prósentum upp í 4,4 prósent eftir næsta útboð sjóðsins. Ef vextir til fasteignakaupa hækka mun það þrýsta á lækkun íbúðaverðs, en hækkun þess hefur að verulegu leyti drifið áfram verðbólguna. Frá því að bankarnir komu inn á íbúðalánamarkaðinn hafa þeir veitt rösklega 27 þúsund lán að andvirði rúmlega 280 milljörðum króna.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×