Erlent

Hátt í 400 handteknir í óeirðum í Frakklandi

Slökkviliðsmenn slökkva í bíl í Argenteuil, vestur af París, í gærkvöld.
Slökkviliðsmenn slökkva í bíl í Argenteuil, vestur af París, í gærkvöld. MYND/AP

Rúmlega 1400 bifreiðar voru brenndar og hátt í 400 manns voru handteknir í óeirðum í Frakklandi - elleftu nóttina í röð. Lögregla hefur átt í vök að verjast enda hefur hún bæði verið grýtt og skotið á hana.

Fátt bendir til þess að stjórnvöldum í Frakklandi sé að takast að lægja öldurnar í úthverfum Parísar og reyndar víðar um landið. Tíu lögreglumenn særðust, þar af tveir alvarlega, þegar um tvö hundruð óeirðaseggir réðust gegn lögreglu og beittu til þess byssum og grjóti í Grigny, úthverfi Parísar, í gækvöld og nótt. Í Toulouse þurfti lögregla að að beita táragasi til að hafa hemil á æstum múgnum og þá kom einnig til átaka í Orleans, Rennes and Nantes. Lögregla segir óeirðagengi reyna að ögra lögreglumönnum og stofna þannig til átaka. Gengin séu farin að nota byssur og því óttist lögreglan að það endi með mannfalli í öðrum hvorum hópnum.

Óeirðirnar hafa stigmagnast frá degi til dags í hverfum innflytjenda í París og víðar, en þær brutust út fyrir ellefu dögum þegar tveir ungir piltar létust af völdum raflosts í rafstöð þegar lögregla veitti þeim eftirför í Clichy-sous-Bois, úthverfi Parísar. Mönnum ber ekki þó ekki saman um hver sé raunveruleg ástæða uppþotanna. Sumir segja það aðgerðarleysi stjórnvalda í málefnum ungra innflytjenda en aðrir segja glæpaklíkur og gengi nýta sér ástandið og reyna að skapa glundroða.

Þá er bent á að ummæli Nicolas Zarkozy innanríkisráðherra þar sem hann kallaði skemmdarvarga í úhverfum hyski hafi æst fólk enn meira upp. Þetta virðist þó ekki hafa bakað honum jafnmiklar óvinsældir og menn héldu því í skoðanakönnun sem birt er í franska dagblaðinu Le Parisien nýtur hann stuðnings 57 prósenta þjóðarinnar.

Forseti Frakklands, Jacques Chirac, sagði á blaðamannafundi sem haldinn var í gær að það væri forgangsmál franskra stjórnvalda að koma á lögum og reglu í úthverfum Parísar. Þeir sem ýttu undir ofbeldi og ótta yrðu handsamaðir. Chirac sagði einnig, að nauðsynlegt væri að tryggja að allir nytu jafnra tækifæra og réttlætis svo hægt yrði að binda enda á óeirðirnar.

Stjórnvöld í Bandaríkjunum, Bretlandi, Kanada og Rússlandi hafa varað þegna sína við að fara til Parísar, sem er einn vinsælasti ferðamannastaður heims, vegna óeirðanna. Ferðamenn eru beðnir um að fara ekki á þá staði þar sem mótmælagöngur eru haldnar og ef fólk gæti mögulega frestað ferðum sínum til borgarinnar, væri það æskilegt.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×