Erlent

Frúarkirkjan í Dresden endurreist

Eitthvert þekktasta ummerki sprengjuregnsins í Þýskalandi síðustu daga seinni heimsstyrjaldarinnar er frúarkirkjan í Dresden. Áratugum saman stóðu aðeins fáeinir steinar eftir og rústirnar lágu í hrúgu í miðri borginni. En nú hefur kirkjan verið endurreist.

Fáir atburðir snerta gamla Þjóðverja jafndjúpt og sprengjuregnið í miðborg Dresdenar undir lok heimsstyrjaldarinnar, - og fá mannvirki eru jafngildishlaðið tákn atburðanna og frúarkirkjan.

Dresden er þekkt fyrir fjölda íburðarmikilla og fallegra bygginga, listasöfn og sögulegar minjar. Í tvær aldir trónaði kúpull frúarkirkjunnar yfir öllu, allt þar til í febrúar 1945. Þá hrundi hún, í einhverri áköfustu sprengjuárás bandamanna á þýskar borgir, og hún brann til kaldra kola. Svona leit þetta út allt til ársins 1994: í miðri borginni var steinahrúga eins og sár á líkama þessa mikla menningarseturs. Þar lágu rústir þess sem eitt sinn var hin stolta frúarkirkja og aðeins stóð hluti af einum vegg ennþá uppi, eins og brotin sjálfsmynd þýsku þjóðarinnar.

En árið 1994 hófst enduruppbyggingin: steinunum var raðað saman, þeir merktir og reynt að sjá hvernig nota mætti rústirnar í endurbyggingu. Tíu árum og tíu milljörðum síðar er frúarkirkjan aftur á sínum stað, meistaraverk byggingameistarans George Bähr er risið á nýjan leik.

Fjöldi einstaklinga og fyrirtækja, ekki síst í Bandaríkjunum og Bretlandi, lagði hönd á plóginn og sextíu prósent byggingarkostnaðarins voru greidd með frjálsum framlögum. Sextíu þúsund manns voru svo við endurvígsluna í dag.

Þjóðverjar fagna og leiðarahöfundur vikublaðsins die Zeit segir þennan dag hinn raunverulega þjóðhátíðardag Þjóðverja, því að þetta sé dagurinn þegar þeir hættu að þjást undan sjálfum sér.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×