Viðskipti innlent

Hagnaður Landsbankans 700 milljónum minni en í fyrra

Hagnaður Landsbanka Íslands eftir skatta nam fimm milljörðum króna á þriðja ársfjórðungi. Á sama tímabili í fyrra var hagnaðurinn 700 milljónum meiri, eða 5,7 milljarðar. Í tilkynnningu frá bankanum segir að taka verði þó tillit til þess að á þriðja ársfjórðungi þessa árs var viðskiptavild sem myndaðist við samrunann við Burðarás afskrifuð, en hún nam 3,3 milljörðum króna.

Hreinar vaxtatekjur Landsbankans á fjórðungnum námu 6,3 milljörðum króna sem er aukning um tæplega 32% á milli ára. Hreinar þjónustutekjur tímabilsins voru tæpir 4,4 milljarðar króna og hafa þær aukist um rúma tvo milljarða síðan í fyrra. Þá námu aðrar tekjur Landsbankans á þriðja ársfjórðungi alls 6,2 milljörðum kr. en á sama fjórðungi síðasta árs námu þær 6,6 milljörðum.

Ef litið er til fyrstu níu mánaða ársins 2005 nemur hagnaður Landsbankans fyrir skatta og virðisrýrnun viðskiptavildar 23,3 milljörðum króna samanborið við 14,4 milljarða á sama tímabili í fyrra. Eftir skatta er hagnaðurinn 16 milljarðar sem jafngildir 48% arðsemi eigin fjár.

Hreinar vaxtatekjur á tímabilinu námu 15,7 milljörðum kr. samanborið við 10,1 milljarð á fyrstu níu mánuðum ársins 2004 og hafa þær því aukist um 55% á milli ára. Hreinar þjónustutekjur námu 12 milljörðum kr. samanborið við 6,1 milljarð í fyrra.

Í lok september námu heildareignir Landsbankans rúmlega 1.142 milljörðum króna og hafa þær aukist um 55% frá áramótum. Eigið fé bankans á sama tímabili hefur aukist um 162% og nam alls 98,7 milljörðum kr. í lok september.

 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×