Viðskipti innlent

Segir Berlingske Tidende á villigötum

Eignarhaldsfélagið Fons ætlar að selja Iceland Express eftir að hafa selt FL Group Sterling, þar sem félögin verða í samkeppni. Danska blaðið Berlinske Tidende segir að Fons hafi hagnast um ellefu milljarða á því að kaupa og selja Sterling, en Pálmi Haraldsson , sem gerði kaupin, segir blaðið alvarlega á villigötum.

Pálmi segir að þegar hann samdi við AP Möller um kaupin á Maersk, sem nú hefur verið sameinað Sterling, hafi verið samkomulag um að trúnaður ríkti um kaupverðið. Danskir fjölmiðlar hafi haldið þvi fram að hann hafi fengið greitt með félaginu en hann geti staðfest að hafa greitt fyrir það með peningum.

Einnig sé horft framjá því að fyrir sameininguna hafi Maersk verið tvöfalt umsvifameira félag en Sterling og rekið tvölfalt fleiri þotur. Almar Hilmarsson, framkvæmdastjóri Sterling, segir í viðtali við Berlingske Tidende að Sterling sé hætt við öll áform um Ameríkuflug.

Jörgen Lindegaard, forstjóri SAS, segir í viðtali við Ritzau-fréttastofuna að miðað við þann aðskilnað Sterling og Icelandair, sem boðaður er í tilkynningu um kaupin, ætti samstarf SAS og Icelandair að geta haldið áfram.

Hluthafafundur verður boðaður í dag eða næstu daga í FL Group þar sem breyttar áherslur félagsins eftir kaupin á Sterling verða kynntar og kosin ný stjórn.

Við söluna á Sterling mun eignarhaldsfélagið Fons, sem er í eigu Pálma Haraldssonar og Jóhannesar Kristinssonar, eignast verulegan hlut í FL Group þar sem hluti kaupverðsins er greiddur í hlutabréfum í FL Group. Í

ljósi þess og að Pálmi verður áfram stjórnarformaður Sterling og Fons á hundrað prósent í Iceland Express, sem er í samkeppni við Icelandair, segir Pálmi það liggja í augum uppi að þeir muni ganga úr stjórninni og að líklega muni einhverjum bankanum verið falið að selja fyrirtækið á næstunni.

Pálmi sagðist ekki kannast við að einhver ákveðinn aðili hafi þegar sýnt áhuga á kaupunum. Mikill viðsnúningur hefur orðið í rekstri þess og er það nú rekið með hagnaði. Þá er það að fjölga áfangastöðum á meginlandinu úr tveimur í sjö á þessu ári.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×