Viðskipti innlent

Viðræður um Sterling standa yfir

FL Group kaupir Sterling af eigendum Iceland Express ef samningar nást en viðræður milli Hannesar Smárasonar, stjórnarformanns FL Group, og Pálma Haraldssonar eru í fullum gangi. Endanleg ákvörðun hefur þó ekki verið tekin. Hannes Smárason, stjórnarformaður FL Group, sem meðal annars rekur Icelandair, og Pálmi Haraldsson, annar aðaleigenda danska lággjaldaflugfélagsins Sterling, funda um hugsanleg kaup FL Group á lággjaldaflugfélaginu Sterling. Hannes vildi lítið tjá sig þegar fréttastofa stöðvar 2 og Bylgjunnar hafði samband við hann í dag en sagði þó að félagið vissulega áhugavert en að of snemmt væri að segja til um hvort einhverjar breytingar yrðu gerðar innan félagsins ef það yrði keypt eða hvort það verði keypt yfir höfuð. Hannes sagði þó FL Group sífellt að leita nýrra kauptækifæra og væru þessar viðræður liður í þeirri stefnu. Sterling var keypt í apríl á þessu ári af Pálma Haraldssyni og Jóhannesi Kristinssyni, eigendum Iceland Express, og áætlar félagið að Sterling skili hagnaði á næsta ári. Hversu mikill hann verður eða tapið í ár segja forráðamenn þó of snemmt að segja til um. Stjórnendur Sterling stefna að ná þrefaldri stærð sinni á næstu þremur til fjórum árum en félagið rekur nú um 30 flugvélar að flugvélum Maersk-flugfélagsins meðtöldum en Sterling keypti Maersk nýlega af AP Möller.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×