Viðskipti innlent

Húsnæðisvextir kunni að hækka

Frekari stýrivaxtahækkanir Seðlabankans, og til lengri tíma en fjármálamarkaðurinn hafði reiknað með kunna að leiða til þess að vextir af húsnæðislánum almennings hækki og þar með útgjöld heimilanna. Krónan kann að styrkjast mun meira en orðið er og erlendir gjaldmiðlar þannig að lækka í verði á næstunni í kjölfar stýrivaxtahækkunar Seðlabankans í gær sem var talsvert meiri en peningamarkaðurinn hafði reiknað með. Seðlabankinn gefur auk þess skýrt til kynna að hann ætli að hækka vexti mun meira og halda þeim háum mun lengur en sérfræðingar fjármálamarkaðarins höfðu gert ráð fyrir, segja sérfræðingar KB banka meðal annars um nýjustu aðgerðir Seðlabankans í gær. Stýrivaxtahækkunin kemur við almenning á fleiri vegu en í hækkun vaxta af húsnæðislánum því ef krónan fer enn hækkandi ætti verð á innfluttum vörum að lækka eitthvað sem yki kaupmátt og ætti að draga eitthvað úr verðbólgu til skamms tíma litið. Sérfræðingar eru sammála um að aðgerðir Seðlabankans miði að því að fall krónunnar og verðbólguskotið í kjölfar þennslunnar um aldamótin endurtaki sig ekki en greiningardeildir bankanna hafa spáð því að krónan falli um allt að 25 prósent á næstu tveimur árum, sem aftur myndi rýra kaupmátt almennings. Seðlabankinn ætlar semsagt að reyna að sporna við því gengisfalli. Talsmenn útflutningsgreinanna hafa þegar lýst því að krónan sé orðin svo há að starfssemi þeirra sé í auknum mæli að hrekjast úr landi og að það kunni í framtíðinni að hafa áhrif á atvinnuástandið í landinu sem auðvitað snertir þá almenning og að það sé sú neikvæða útrás sem ekki megi tala um.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×