Viðskipti innlent

Afkoma ríkisins batnar milli ára

Bráðabirgðatölur fyrir annan ársfjórðung þessa árs benda til þess að afkoma hins opinbera hafi batnað verulega frá því í fyrra að því er fram kemur í nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Útlit er fyrir að heildartekjur ríkissjóðs hafi orðið 87,3 milljarðar króna á rekstrargrunni og tekjur hafi aukist um 30,1 prósent frá sama fjórðungi síðasta árs en gjöld um 16,4 prósent. Hið sama er ekki hægt að segja um sveitarfélögin. Þar eru tekjur á öðrum ársfjórðungi áætlaðar um 25,4 milljarðar króna en rekstrargjöld eru áætluð 24,4 milljarðar og sýnist rekstrarniðurstaðan því hafa orðið jákvæð um 1,0 milljarð. Þetta er hins vegar verri niðurstaða en í fyrra enda eru tekjurnar taldar hafa aukist um nær 19 prósent en rekstrargjöldin um nær 26 prósent. Fjárfesting sveitarfélaganna á öðrum ársfjórðungi er talin hafa orðið mun meiri en afskriftir þeirra og tekjujöfnuður því hafa orðið neikvæður um 1,9 milljarða samnborið við 1,2 milljarða á sama tíma í fyrra. Heildartekjur ríkissjóðs og sveitarfélaga, þ.e. hins opinbera í heild, eru áætlaðar 112,7 milljarðar króna á öðrum ársfjórðungi 2005. Hafa rekstartekjur aukist um 27,4 prósent frá því á sama tímabili í fyrra en rekstrargjöld um 17,5 prósent. Sem hlutfall af landsframleiðslu ársins er afgangurinn áætlaður 0,3 prósent hjá hinu opinbera í heild. Í sama fjórðungi fyrra árs var tekjujöfnuðurinn neikvæður um 5,3 milljarða eða 0,6 prósent af landsframleiðslu ársins. Þá hafa heildartekjur hins opinbera á fyrri árshelmingi 2005 aukist um 23,3 prósent en rekstrargjöld um 12 prósent. Tekjujöfnuður hefur því batnað verulega. Hann er nú áætlaður 4,9 prósent af tekjum en var á sama tíma í fyrra talinn neikvæður um nánast sama hlutfall eða 4,7 prósent. Meginskýringin er batnandi hagur ríkissjóðs en tekjujöfnuður sveitarfélaganna hefur versnað lítið eitt.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×