Viðskipti innlent

Stýrivextir hækkaðir um 0,75%

Seðlabanki Íslands hefur ákveðið að hækka stýrivexti bankans um 0,75% frá og með 4. október n.k. í 10,25%. Seðlabankinn hefur þá hækkað stýrivexti sína um 4,95% síðan í maí 2004. Aðrir vextir bankans verða einnig hækkaðir um 0,75% frá 1. október n.k. Birgir Ísleifur Gunnarsson, seðlabankastjóri, sem í dag kynnti sína síðustu vaxtahækkun, segir verðbólguhorfur verri nú en í júní. Verðbólgumarkmið náist því ekki fyrr en 2008, sem sé óásættanlegt. Þannig eigi vaxtahækunin ekki að koma á óvart. Breytingar á vaxtastigi frá í júní segir Birgir að megi að miklu leyti skýra með aukinni einkaneyslu. Hún sé orðinn slík að hægt sé að tala um sögulegt hámark á öðrum ársfjórðungi, þegar einkaneysla jókst um 14%. Það sé met frá því mælingar hófust. Birgir Ísleifur bendir ennfremur á að húsnæðisverð sé enn að hækka og þannig drífa áfram verðbólguna. Aðspurður um hvort spákaupmenn, sem gefið hafa út bréf í íslenksum krónum fyrir um 60 milljarða króna til að græða á vaxtamun, muni ekki auka enn við þá útgáfu, segist Birgir ekki eiga von á því að skörp gengislækkun muni verða. Hann segir að þegar gengið lækki muni það geta haft í för með sér aukna verðbólgu, en það verði ekki kollsteypa. Birgir Ísleifur segist vonast til að verðbólgumarkmið náist á næsta ári.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×