Viðskipti innlent

SÍF vel undir væntingum

Hagnaður SÍF á öðrum ársfjórðungi var aðeins 33 þúsund evrur. Er það talsvert undir spám bankanna sem höfðu að meðaltali gert ráð fyrir tæplega 6,2 milljóna evra hagnaði. Hagnaður á fyrri hluta árs var alls 2,8 milljónir evra. Svokölluð EBITDA-framlegð var einnig langt undir væntingum markaðsaðila. "Eins og við spáðum í maí hafði umtalsverð hækkun hráefnisverðs samanborið við sama tíma í fyrra umtalsverða erfiðleika í för með sér á öðrum ársfjórðungi. Áhrif hækkandi laxaverðs voru veruleg þar sem SÍF er með leiðandi stöðu í framleiðslu og sölu reyktra laxafurða á lykilmörkuðum sínum í Vestur-Evrópu," segir Jakob Sigurðsson, forstjóri SÍF, í tilkynningu frá félaginu. Ágætis tekjuaukning varð á milli fyrsta og annars fjórðungs en sölutekjur námu um 114 milljónum evra. Fastlega er búist við að hátt hráefnisverð muni hafa áhrif á afkomu félagsins á næsta ársfjórðungi sem verður fyrsti ársfjórðungur þar sem félagið hóf nýtt reikningsár í júlí. Síðasti ársfjórðungur er eftir sem áður langmikilvægastur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×