Viðskipti innlent

Vextir hækkaðir um 50 punkta

Seðlabankinn mun hækka vexti um 50 punkta samhliða útgáfu Peningamála á morgun, samkvæmt spá greiningardeildar KB banka. Ef svo fer munu stýrivextir Seðlabankans vera 10%, en þeir hafa hækkað alls um tæp 5% frá því í maí í fyrra þegar vaxtahækkunarferli bankans hófst. Seðlabankanum ber skylda til þess að halda framtíðarverðbólgu innan ákveðinna marka. Af þeim sökum hljóta röksemdir fyrir vaxtahækkun nú, að sögn greiningardeildarinnar, einkum að vera þær að verðbólga verði utan þessara marka eftir 1-2 ár. Ef litið er 6-12 mánuði fram í tímann eru helstu verðbólguhætturnar aðallega af tvennum toga. Í fyrsta lagi mun krónan gefa eftir þegar fram í sækir í hagsveiflunni sem mun hækka innflutningsverðlag með tilheyrandi verðbólguafleiðingum. Í öðru lagi er vaxandi þensla á vinnumarkaði einnig áhyggjuefni þar sem aukið launaskrið hefur verið merkjanlegt að undanförnu sem mun setja þrýsting á vísitölu neysluverðs.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×