Erlent

Reyna að heilla óákveðna kjósendur

Nú þegar aðeins einn dagur er til þingkosninga í Þýskalandi keppast flokksleiðtogarnir við að vinna óákveðna kjósendur á sitt band. Gerhard Schröder, kanslari, segir Jafnaðarmannaflokki hans best treystandi fyrir framtíð landsins, en Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, sakar hann um svikin loforð. Mikil spenna ríkir í Þýskalandi vegna kosninganna til sambandsþingsins, en á lokasprettinum fyrir kosningarnar hefur dregið töluvert saman með stjórn og stjórnarandstöðu. Gríðarlega margir hafa ekki enn gert upp hug sinn og því mikið í húfi fyrir flokksleiðtogana við að reyna að vinna kjósendur á sitt band. Leiðtogarnir hafa meðal annars lagt áherslu á efnahags- og atvinnumál og Íraksmál í kosningabaráttunni, sem þykir hafa verið hörð að undanförnu. Gerhard Schröder, kanslari Þýskalands, sagðist í dag feginn að jafnvel Angela Merkel teldi nú að ekki ætti að senda þýska hermenn til Íraks. Á kosningadaginn væri það hins vegar ekki spurning um hver væri með frið á stefnuskránni, meira máli skipti hver gæti staðið við skoðanir sínar, jafnvel undir þrýstingi frá þjóðum heims.  Angela Merkel, leiðtogi Kristilegra demókrata, segir hins vegar að það sem hafi orðið til þess að ríkisstjórnin hafi misst traust fólks hafi verið loforð um að skapa tvær milljónir starfa á þremur árum. Hins vegar hafi störfum fækkað um eina og hálfa milljón á þeim tíma. Loforð og svikin loforð hafi æ ofan í æ rýrt traust kjósenda. Það rugli fólk í ríminu og þess vegna kjósi það nýja ríkisstjórn og fyrir því berjist kristilegir demókratar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×