Sport

Gunnar smíðar fram að leik

Gunnar Sigurðsson, markvörður Fram í Landsbankadeild karla verður seint sakaður um að vera letiblóð. Gunnar sem er smiður af mennt hefur alla tíð unnið mikið og reynt að láta ekki knattspyrnuiðkun sína koma í veg fyrir að geta unnið almennilegan vinnudag. Markvörðurinn er vaknaður fyrir allar aldir og smíðar fram að æfingu og leikdagar eru með sama sniði.Framarar taka í dag á móti Íslandsmeisturum FH á Laugardalsvelli í leik sem liðið verður helst að vinna eða fá jafntefli svo liðið falli ekki niður í 1.deild. Á meðan flestir leikmanna liðanna koma sér líklega á fætur um tíu leytið er Gunnar farinn út að smíða en hann ætlar að vinna frá 7-12 í dag og mætir síðan beint í þennan mikilvæga leik. " Mér finnst langbest að hafa þetta svona. Því maður æfir og vinnur alla daga og því væri það rangt að fara breyta út af vananum," segir Gunnar.Mikið hefur verið rætt og ritað um ummæli Heimis Guðjónssonar, fyrirliða FH sem sagði að FH-ingar ætluðu að taka á Frömurum þar sem Safamýrarliðið hafi talað niður ti FH-inga í allt sumar. Gunnar hefur ekkert út á ummæli Heimis að setja, "bara gott hjá honum að láta þetta eftir sér. Ef Heimi langar að verða einhver Mourinho Íslands þá má hann það mín vegna" sagði Gunnar sem mátti lítið vera af því að ræða við Fréttablaðið vegna anna við smíðar í Grafarholtinu. Gunnar sem gekk til liðs við Framara um mitt sumar 2001 hefur lent í úrslitaleik um fall í síðasta leik öll árin sín hjá Framliðinu en Fram hefur forðast fall í lokaleik allt frá árinu 1999 þegar Anton Björn Markússon gerði sigurmark þeirra á ellefstu stundu gegn Víkingum í eftirminnilegum leik, einmitt á Laugardalsvelli.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×