Sport

Sama sagan hjá Fram

"Ég hefði aldrei sætt mig við jafntefli úr þessum leik. Við fengum aragrúa marktækifæra í fyrri hálfleiknum og áttum að hafa náð að skora fleiri mörk," sagði Kristján Guðmundsson þjálfari Keflavíkur eftir góðan heimasigur á Fram í gær. Rokið hafði talsverð áhrif á leikinn og heimamenn höfðu tögl og haldir í fyrri hálfleiknum. Hörður Sveinsson skoraði fyrsta mark leiksins með flottum skalla eftir sendingu frá Jónasi Guðna. Vörn Fram virkaði ansi óörugg og hún gerði sig seka um slæm mistök þegar Guðmundur Steinarsson bætti öðru marki við fyrir Keflavík en strax í næstu sókn á eftir náði Andri Fannar Ottóson að minnka muninn. Seinni hálfleikur var lítið fyrir augað og fátt markvert sem gerðist. Frömurum tókst ekki að ógna marki heimamanna nægilega mikið og Keflvíkingar hrósuðu því verðskulduðum sigri 2-1. Enn eitt árið berjast Framarar því við falldrauginn fram í lokaumferð. "Ég get eiginlega ekkert sagt! Þeir spiluðu bara betur og áttu þetta skilið. Nú þurfum við bara að bjarga okkur í síðasta leik enn eitt árið," sagði Gunnar Sigurðsson markvörður Fram í leikslok.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×