Innlent

Fljúga til sex nýrra borga

Flugfélagið Iceland Express mun hefja áætlunarflug til sex borga í Evrópu frá og með maí á næsta ári, samkvæmt heimildum Fréttablaðsins. Þrír áfangastaðanna eru á Norðurlöndunum og þrír í Þýskalandi. Borgirnar sem flogið verður til á Norðurlöndunum eru Björgvin, Gautaborg og Stokkhólmur en þýsku áfangastaðirnir eru Hamborg, Berlín og Friedrichshafen. Mun Iceland Express meðal annars ætla að reyna selja ferðir sínar erlendum ferðamönnum á þessum slóðum auk þess sem áfangastaðirnir munu vera valdir þar sem ferðir Íslendinga til norrænu borganna eru tíðar. Iceland Express mun taka í notkun þrjár nýjar vélar af sömu gerð og stærð og félagið notar í dag vegna hinna nýju áfangastaða. Má búast við að fargjöld verði á svipuðu verði og þau eru til núverandi áfangastaða félagsins en félagið flýgur til Kaupmannahafnar, Lundúna og Frankfurt í dag. Áætlað er að flug til þessara borga muni standa til boða fljótlega en fyrstu vélarnar halda utan í lok maí á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×