Viðskipti innlent

Föroya á breskan markað

Færeyska ríkisfjarskiptafyrirtækið Föroya Tele hefur keypt hlut í bresku breiðbandsveitunni Telebria. Telebria er rúmlega tveggja ára gamalt fyrirtæki og stendur nú að uppbyggingu stærsta breiðbandskerfis á Bretlandseyjum. Mikil einkavæðingarhrina er fyrir dyrum í Færeyjum og er Föroya Tele eitt þeirra fyrirtækja sem til stendur að einkavæða. Leiða má að því líkum að með kaupunum leitist forsvarsmenn fyrirtækisins við að auka verðmæti þess áður en það verður selt. Segir í tilkynningu frá Föroya Tele að fyrirtækið telji nauðsynlegt að færa sig út fyrir eyjarnar til þess að mæta kröfum um frekari vöxt og að í útrásinni sé ómetanlegt að njóta samstarfs við fyrirtæki á borð við Telebria. Tróndur Djurhus, framkvæmdastjóri, tekur sæti í stjórn Telebria fyrir hönd Föroya Tele. Alls var seldur rúmlega 120 milljóna króna hlutur í Telebria og var Föroya Tele stærsti kaupandinn.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×