Sport

Fallbaráttuslagurinn í dag

Nú þegar aðeins þrjár umferðir eru eftir í Landsbankadeild karla og ljóst að FHingar hafa þegar tryggt sér Íslandsmeistaratitilinn, beinast augu flestra að fallslagnum, sem er gríðarlega harður í ár. Grindavík og Þróttur eru í tveimur neðstu sætum deildarinnar eins og staðan er í dag, en þessi lið eiga bæði heimaleiki í dag. Fréttablaðið ræddi við Bjarna Jóhannsson, þjálfara fyrstudeildarmeistara Breiðabliks og leitaði álits hans á stöðu mála í fallbaráttunni."Þessir leikir í dag koma til með að ráða miklu um það hvaða lið halda sér í deildinni og sérstaklega er leikur Grindavíkur og Fram sérlega áhugaverður. Fram virðist hafa tekið hinn árlega haustsprett sinn dálítið snemma núna en það er ljóst að liðið er ekki enn sloppið við fall. Ég á ekki von á því að verði skoruð mörg mörk í Grindavík, því bæði lið munu fara mjög varlega af stað, svo ég held að þessi leikur gæti bara endað með markalausu jafntefli," sagði Bjarni, sem segist vel geta trúað Þrótti til að leggja KR á Laugardalsvellinum. "Það liggur á borðinu að Þróttur þarf einfaldlega að vinna alla leiki sem eftir eru til að eiga möguleika og ég gæti alveg trúað þeim til þess að vinna KR í dag. Annars held ég að það lið sem hefur kjark og þor og nær upp nógu góðri stemmingu í báðum þessum leikjum, muni vinna og ná þá jafnvel að bjarga sér frá falli," sagði Bjarni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×