Viðskipti innlent

Síminn breytti skuld í hlutafé

Nú er ljóst að Síminn ræður yfir nánast öllu hlutafé Íslenska sjónvarpsfélagsins hf., sem rekur SkjáEinn. Í fyrra keypti Síminn allt hlutafé í Íslensku sjónvarpi ehf. fyrir 94 milljónir króna, en það félag átti um helming hlutafjár í Skjá- Einum. Á fyrstu þremur mánuðum þessa árs keypti Síminn í öðru félagi sem átti í SkjáEinum, Fjárfestingarfélaginu Bröttubrú, og í SkjáEinum sjálfum fyrir 89 milljónir króna. Þessi félög voru svo sameinuð SkjáEinum, sem er nú hluti af samstæðureikningi Símans. Síminn getur notað uppsafnað skattalegt tap SkjásEins að upphæð 1,7 milljarðar króna samkvæmt efnahagsreikningi í lok síðasta árs. Skuldir SkjásEins námu þá samtals 1,5 milljörðum króna. Þar af voru um 230 milljónir langtímaskuldir. Eigið fé var neikvætt um 290 milljónir króna. Heildarhlutafé var 642 milljónir króna. Samkvæmt fjárfestingaráætlun Símans fyrir árið í ár átti að ráðast í stóraukna fjárfestingu vegna sjónvarpsrekstrar. Uppfæra átti ADSLdreifikerfið fyrir um milljarð króna til þess að flytja gagnvirkt sjónvarp. Samkvæmt heimildum Markaðarins hefði hvort eð er þurft að uppfæra það kerfi. Með því að bjóða upp á sjónvarpsefni í gegnum flutningskerfið, eins og Enska boltann, fengist meira út úr þeirri fjárfestingu. Viðskiptaáætlanir Símans sýna, þrátt fyrir erfiða fjárhagsstöðu SkjásEins um síðustu áramót, að veltan vegna sjónvarpsreksturs verði 907 milljónir króna á þessu ári. Árið 2003 var velta SkjásEins 596 milljónir króna. Veltan á síðan að aukast ár frá ári og verða 1.300 milljónir árið 2007 og um tveir milljarðar árið 2009. Búið var að taka allar þessar ákvarðanir varðandi rekstur SkjásEins áður en Síminn var seldur og var enn í eigu ríkisins. Heimildir Markaðarins herma að erfitt sé að vinda ofan af þessari þróun eftir einkavæðinguna. Forsvarsmenn núverandi eigenda hafa sagt opinberlega að ekki standi til að breyta þessum áætlunum.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×