Viðskipti innlent

Undir sama þak í London

Það er í um 250 metra fjarlægð frá núverandi skrifstofuhúsnæði Kaupþings við New Bond Street. Nýja húsið, sem er meðal annars í eigu Crown Estates, er tæpir tíu þúsund fermetrar að flatarmáli, eða um tvöfalt stærra en höfuðstöðvar KB banka í Borgartúni í Reykjavík. Yfirtöku KB banka á Singer & Friedlander lauk núna í sumar og var þá markaðsverðmæti breska bankans um 65 milljarðar króna. Hinn 8. ágúst var viðskiptum með hlutabréf Singer í bresku kauphöllinni hætt og bankinn afskráður. Stjórnendur KB banka sögðu í sumar að eftir að þeir tækju við stjórn bankans yrðu næstu skref í rekstri hans skoðuð. Samkvæmt upplýsingum af heimasíðu Singer & Friedlander störfuðu 650 í bankanum um mitt ár 2004, þar af um fjögur hundruð í London. Á skrifstofu Kaupþings í London starfa um fimmtíu manns. Ný starfsstöð KB banka í London mun að öllu óbreyttu hýsa tæplega 500 starfsmenn. Þá hefur KB banki tekið nýtt húsnæði á leigu undir starfsemi sína í Lúxemborg. Er nýja starfsstöðin tvöfalt stærri en núverandi skrifstofur, eða um 3.500 fermetrar, og stendur við Boulevard Kennedy í Kirchberg. Verið er að innrétta húsið, sem er nýtt, og stendur til að flytja starfsemina í upphafi árs 2006. "Vöxtur bankans hefur kallað á stækkun höfuðstöðva hans," segir Magnús Guðmundsson framkvæmdastjóri Kaupþings í Lúxemborg. Hann segir rekstrartekjurnar hafa tvöfaldast fyrstu sex mánuði ársins miðað við sömu mánuði í fyrra. Hagnaður hafi verið á starfseminni frá upphafsárinu 1998 og starfsmenn séu nú rúmlega hundrað. Verkefnum hafi fjölgað samhliða stækkun KB banka og innreið á nýja markaði í Evrópu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×