Viðskipti innlent

Óvæntar verðbólgufréttir

 Vísitala neysluverðs í ágúst 2005 hækkaði um 0,21 prósent frá fyrra mánuði samkvæmt tölum frá Hagstofunni. Markaðsaðilar höfðu spáð því að vísitalan lækkaði örlítið eða stæði í stað. Íslandsbanki segir að hækkanir á fasteignamarkaði og matarverði hafi verið meiri en gert var ráð fyrir. Sumarútsölur héldu áfram og leiddu til tæplega sjö prósenta verðlækkunar á fötum og skóm. Snorri Jakobsson, hjá greiningu KB banka, telur að markaðurinn hafi brugðist of hart við. Gildi vísitölunnar er ekki langt frá því sem gert hafði verið ráð fyrir. "Það má lýsa þessu fremur sem mælingarvanda en að breytingar hafi orðið á undirliggjandi efnahagslegum þáttum en krónan er sem fyrr sterk. Það er til dæmis spurning hvenær Hagstofan mælir áhrifin af útsölunum og verðbreytingum á fasteignamarkaði. Ég held að það hafi kólnað nokkuð á fasteignamarkaði sem mun líklega hafa minni áhrif á vísitöluna á næstu mánuðum." Mikil viðskipti voru í gær á skuldabréfamarkaði en á fyrsta klukkutímanum í Kauphöll Íslands hafði verið verslað með skuldabréf fyrir 7,5 milljarða króna. "Það er mjög jákvætt að markaðurinn taki við sér en hann hefur verið rólegur í sumar," segir Snorri. Ávöxtunarkrafa óverðtryggðra bréfa lækkaði en hækkaði í tilviki verðtryggðra bréfa. Það gefur til kynna að fjárfestar búist við frekari vaxtahækkunum Seðlabankans. Snorri telur að Seðlabankinn bregðist ekki við þessari mælingu með hækkun stýrivaxta. Sjálfur býst hann við 25 punkta hækkun í haust. Síðustu tólf mánuði hefur vísitala neysluverðs hækkað um 3,7 prósent en vísitala neysluverðs án húsnæðis um 0,1 prósent.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×