Viðskipti innlent

Útilokar ekki yfirtöku á easyJet

Allt er falt, segir stjórnarformaður FL Group vegna ummæla meirihlutaeiganda Easy Jet um að hlutur hans sé ekki til sölu. Hannes segir áhuga á félaginu mikinn og útilokar ekki yfirtöku. FL Group hefur keypt 1,51 prósent til viðbótar í breska lággjaldafélaginu easyJet en fyrir átti félagið 11,5 prósenta hlut. FL Group á því eftir kaupin rúm 13 prósent í félaginu. Eftir kaupin í gær fór af stað orðrómur þess efnis að FL Group stefndi að yfirtöku félagsins en forsvarsmenn FL Group hafa sagt að frekari fjárfestinga sé að vænta á erlendum flugmarkaði í náinni framtíð. Stelios Haji-Ioannou, stofnandi Easy Jet, segist hins vegar ekki ætla að selja hlut sinn í félaginu en hann á, ásamt fjölskyldu sinni, rúm 40 prósent í félaginu. Haji-Ioannou segir í samtali við fréttastofuna Reuters í dag að hann vilji vinna með stjórninni að því að hækka gengið hlutabréfa í fyrirtækinu, þau séu undirverðlög og því muni hann halda þeim hlut sem hann á. Hannes Smárason vildi ekki tjá sig um hvort FL Group ætli sé að yfirtaka félagið en sagði áhuga sinn á félaginu þó mikinn. Það má því lesa út úr yfirlýsingum Hannesar að vel komi til greina að eignast félagið að fullu þótt Haji-Iouanno hafi sagt hlut sinn ekki til sölu. Því eins og Hannes orðar það sjálfur er allt falt. EasyJet var sett á markað árið 2000. FL Group keypti fyrst í fyrirtækinu í október á síðasta ári og á sem fyrr segir nú 13 prósent í félaginu. EasyJet er meðal elstu lággjaldaflugfélaga í Evrópu þótt aðeins séu tíu ár síðan félagið var stofnað.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×