Viðskipti innlent

FL Group kaupir meira í easyJet

FL Group hefur tilkynnt um kaup á 1,5 prósenta hlut í breska lággjaldaflugfélaginu easyJet. Mikil viðskipti hafa verið með bréf í easyJet uppi á síðkastið og skiptu 27 milljónir hluta, eða 2,5 prósent hlutafjár, um hendur á föstudag og mánudag. Enn er óljóst hvort stærstu eigendurnir Stelios Haji-Ioannou og systkini hans, sem samanlagt eiga fjörutíu prósent, vilji selja sína hluti en samkvæmt þessu er augljóst að FL Group styrkir stöðu sína í hluthafahópnum. Hlutur FL Group er um þrettán prósent. Talið er að staða FL Group sé sterk og félagið muni ekki eiga í vandræðum með að selja hlut sinn ef þurfa þykir. Á sama tíma er yfirstjórn hjá breska lággjaldaflugfélagsinu í lamasessi þrátt fyrir góðan rekstrarárangur á síðasta ársfjórðungi. Colin Day hefur ákveðið að segja sig úr stjórn easyJet og er annar stjórnarmaðurinn sem segir starfi sínu lausu á stuttum tíma. Hann gerði sér vonir um að taka við forstjórastarfinu af Ray Webster sem sagði starfi sínu lausu í maí eftir tíu ára starf. The Times segir að stjórnarmenn hafi ekki verið einhuga um að bjóða Day, sem er fjármálastjóri hjá Reckitt Benckiser, starfið. FL Group á engan fulltrúa í stjórn easyJet, en hugsanlegt er að breyting verði þar á. Félagið birti uppgjör fyrir þriðja ársfjórðung sem sýndi mikinn vöxt og aukningu hagnaðar þrátt fyrir að eldsneytiskostnaður hafi aukist um sextíu prósent. Veltan jókst um fimmtung á milli ára og tekjur af hverjum farþega hækkuðu til að mynda um tæpt prósent. Bréf í easyJet hafa hækkað um tíu prósent frá birtingu uppgjörsins og um 47 prósent á árinu.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×