Innlent

Fordómar innan nefndarinnar

Ekkert annað en fordómar þeirra nefndarmanna sem töldu annmarka á að leyfa samkynhneigðum að ættleiða börn frá útlöndum og að leyfa lesbíum að njóta aðstoðar við tæknifrjóvgun á opinberum sjúkrastofnunum skýrir afstöðu þeirra. Þetta segir Baldur Þórhallsson, lektor í stjórnmálafræði við Háskóla Íslands, í pistli sem birtist í dag á vefritinu Sellan.is. Nefndin sem um ræðir er nefnd sem fjallaði um réttarstöðu samkynhneigðra en hún klofnaði í afstöðu sinni. Baldur segir einnig að vanvirða Sólveigar Pétursdóttur í garð samkynhneigðra á meðan hún var dómsmálaráðherra hafi verið slík að fjöldi homma og lesbía hafi hætt að kjósa Sjálfstæðisflokkinn. Hann skorar á flokkinn að endurheimta þennan kjósendahóp með því að veita samkynhneigðum full mannréttindi og láta ekki einstaka afturhaldssama þingmenn og möppudýr koma í veg fyrir að fjöldi samkynhneigðra og aðstandenda þeirra geti hugsað sér að kjósa flokkinn. Ástæða þessara greinarskrifa Baldurs er sú að ríkisstjórnin mun á haustmánuðum leggja fram frumvarp á Alþingi um aukin réttindi samkynhneigðra en í kjölfarið munu þingmenn úr öllum flokkum leggja fram frumvarp sem gengur lengra og felur í sér þau réttindi sem upp á vantar til að samkynhneigðir njóti jafnra mannréttinda og gagnkynhneigðir.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×