Erlent

Sagði íslam ekki siðmenningu

Ummæli ráðherra í ítölsku ríkisstjórninni, þess efnis að íslam væri ekki siðmenning, hefur valdið mikilli hneykslan á Ítalíu. Hafa talsmenn stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka fordæmt ummælin og lagt áherslu á að samræður við hófsama múslima séu lykillinn að baráttunni gegn hryðjuverkum. Roberto Calderoli, ráðherra kerfisumbóta, lét þau orð falla á þriðjudag að nýjustu hryðjuverkaárásirnar væru afleiðing "áreksturs milli siðmenningar og ekki-siðmenningar". "Að skilgreina íslam sem siðmenningu væri ofrausn," sagði Calderoli, en hann kemur úr Norðurbandalaginu, hægriflokki á Norður-Ítalíu sem hefur beitt sér mjög fyrir takmörkunum á innflytjendastraumi og róttækum ráðstöfunum gegn hryðjuverkaógninni. En Calderoli á sér augsýnilega ófá skoðanasystkin. Í síðustu viku kom út þriðja bók ítalska rithöfundarins Oriana Fallaci, þar sem hún skrifar um ógnina sem hún telur Evrópu og vestrænni menningu stafa af múslimum. Fyrri bækur hennar um efnið hlutu metsölu.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×