Erlent

Tvö þorp umkringd í Egyptalandi

Egypska lögreglan umkringdi fyrir stundu tvö þorp þar sem talið er að finna megi í það minnsta tvo hryðjuverkamenn sem tóku þátt í árásunum í Sharm el-Sheikh um helgina. Níu Pakistana er nú leitað í Egyptalandi þar sem grunur leikur á að þeir tengist hryðjuverkaárásunum í Sharm el-Sheik en þar fórust nærri níutíu manns og yfir hundrað og tuttugu særðust. Arabísku sjónvarpsstöðvarnar al-Jazeera og al-Arabiya greina frá því að talið sé að mennirnir hafi smyglað sér inn í landið á fölsuðum, jórdönskum vegabréfum. Einn mun hafa fallið á flótta undan lögreglu. Formælandi innanríkisráðuneytis Egyptalands vildi ekki tjá sig um tíðindin en Reuters hefur heimildir fyrir því að myndum af fimmtíu manns hafi verið dreift á landamærastöðvar, þar af nokkrum Pakistönum og þekktum, alþjóðlegum hryðjuverkamönnum. Fyrir stundu bárust svo af því fregnir að lögregla hefði umkringt tvö þorp þar sem talið er að tveir af hryðjuverkamönnunum feli sig, báðir Pakistanar. Þúsundir manna, bæði heimamenn og ferðamenn, söfnuðust saman í Sharm el-Sheik í gær til að mótmæla hryðjuverkaárásunum á laugardag. Egypska lögreglan hefur þegar handtekið meira en 70 manns í tengslum við sprengjutilræðin en þetta er mannskæðasta hryðjuverkaárás sem gerð hefur verið í Egyptalandi..



Fleiri fréttir

Sjá meira


×