Sport

Mikið verk fyrir höndum hjá Atla

Þróttarar héldu hreinu í fyrsta leiknum undir stjórn Atla Eðvaldssonar en það dugði þó aðeins í eitt stig gegn Skagamönnum sem hafa haldið hreinu í 315 mínútur í Landsbankadeildinni. Leikur Þróttar og ÍA verður ekki lengi í minnum hafður. Bæði lið voru varkár í leik sínum og tóku ekki mikla áhættu, sérstaklega í seinni hálfleik, og endaði leikurinn 0-0 í daufum leik. Atli Eðvaldsson var að stjórna liði Þróttar í fyrsta skipti í sumar, en hann tók nýlega við þjálfun liðsins af Ásgeiri Elíassyni, sem var búinn að stjórna Þrótti í fimm ár á undan. Atli breytti um leikskipulag og spilaði með fjóra í vörn og á miðjunni, en tvo frammi. Ásgeir lék með þrjá menn í vörn, fimm á miðjunni og tvo frammi, og virtist þessi breyting hjá Atla skila góðum árangri í upphafi leiks. Leikmenn Þróttar voru baráttuglaðir á upphafsmínútum leiksins í gær og áttu þrjár ágætis marktilraunir á fyrstu fimmtán mínútunum. Páll Einarsson átti glæsilegt skot beint úr aukaspyrnu af 35 metra færi en boltinn small í þverslánni. Ólafur Þórðarson, þjálfari ÍA, lét vel í sér heyra á upphafsmínútunum og virtust óp hans hafa góð áhrif á leikmenn ÍA sem voru líflegir seinni part fyrri hálfleiks. Sérstaklega var Hjörtur Hjartarson líflegur en Fjalar Þorgeirsson, markvörður Þróttar, varði ágætlega í tvígang frá honum. Í seinni hálfleik voru Skagamenn betri. Ellert Jón Björnsson var líflegur á hægri vængnum en hann kom inn á í hálfleik. Þróttarar áttu í erfiðleikum með að byggja upp sóknir, sérstaklega á miðjunni, þar sem Pálmi Haraldsson hafði tögl og hagldir. Fjalar Þorgeirsson varði ágætlega frá Hirti Hjartarsyni um miðjan hálfleikinn, eftir að Eysteinn Lárusson hafði misst Hjört klaufalega fram hjá sér. Ólafur Þórðarsona, þjálfari ÍA, var ekki ánægður með fyrri hálfleik sinna manna. „Það kom leikmönnum mínum einhverra hluta vegna á óvart hvað Þróttarar voru sprækir í byrjun. En við börðumst ágætlega í seinni hálfleik. Við hefðum bara átt að nýta færin betur." Atli Eðvaldsson sagði mikið verk vera fyrir höndum. „Þetta byrjaði ágætlega hjá okkur í kvöld, en svo fóru menn að hlaupa of mikið út úr stöðum. Þetta þurfum við að laga en margt gott var í þessu."



Fleiri fréttir

Sjá meira


×