Sport

Andri Steinn farinn í Víking

Miðjumaðurinn Andri Steinn Birgisson er á leið til Víkings Reykjavík sem er í öðru sæti 1. deildarinnar. Andri tók þá ákvörðun að hætta hjá Fram í Landsbankadeildinni en hann missti sæti sitt í liðinu eftir að hafa verið í byrjunarliðinu í fyrstu fjórum umferðunum. Hann var ekki í leikmannahópi liðsins sem lék gegn Þór í bikarnum á þriðjudag og tilkynnti framkvæmdastjóra Fram á miðvikudag að hann væri hættur hjá liðinu. Andri Steinn segir að ósætti sé stærsta ástæðan fyrir því að hann ákvað að hætta hjá Safamýrarliðinu. "Það eru nokkrir hlutir sem orsaka þessa ákvörðun mína. Þetta byrjaði þegar ég mætti tíu mínútum of seint í leik gegn Val, var í byrjunarliði en var tekinn af velli á 25. mínútu. Ég hefði sjálfur óskað þess að fá að byrja á bekknum í stað þess að vera tekinn af velli svo snemma. Út frá þessu komu nokkur leiðindi upp á og mér var ýtt út í horn," sagði Andri Steinn sem er 22 ára. Hann var ekki lengi að taka þá ákvörðun að ganga til liðs við Víking en Sigurður Jónsson, þjálfari liðsins, hefur rætt við hann oftar en einu sinni. "Hann hefur greinilega mikla trú á mér og það er ekkert nema jákvætt. Þeir eru í harðri baráttu um að komast upp í Landsbankadeildina og það verður gaman að taka þátt í henni," sagði Andri Steinn.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×