Sport

Atli tekur við Þrótti

Ásgeir Elíasson og stjórn knattspyrnudeildar Þróttar komust að þeirri niðurstöðu í gær að Ásgeir léti af stjórn sem þjálfari liðsins. Við hans starfi tekur Atli Eðvaldsson, fyrrverandi þjálfari KR og íslenska landsliðsins, og markar hann þannig endurkomu sína í íslenska boltann frá því að hann hætti með íslenska landsliðið fyrir tveimur árum. Kristinn Einarsson, formaður Þróttar, sagði við Fréttablaðið í gær að ástæðan fyrir þjálfaraskiptunum væri mjög einföld. "Árangurinn hefur verið lélegur og ekkert gengið." "Það er mjög góð tilfinning að vera kominn í boltann aftur," segir Atli sem stýrði KR-ingum til Íslandsmeistaratitils árið 1999 og veit því hvað þarf til að búa til vinningslið. Hann segir að hlutirnir hafi gerst hratt í gær. "Þróttur hafði samband við mig í gær og ég fékk nokkurra klukkustunda umhugsunarfrest áður en ég játti," segir Atli. "Ég hlakka mikið til að takast á við þetta verkefni og markmiðið er sjálfsögðu að halda liðinu uppi. Ég er í svipaðri stöðu og Bryan Robson hjá WBA í vetur, honum tókst að bjarga liðinu frá falli. Ef það tekst hjá mér verð ég mjög sáttur," sagði Atli í léttum tón. "Ég ætlaði alltaf að snúa aftur í þjálfunina og hafði hugsað um næsta haust í því sambandi. En svo kemur þetta upp og mér líst mjög vel á," segir Atli sem gerði samning við Þrótt sem gildir út leiktíðina. "Ég tek við góðu búi Ásgeirs og tel mig þekkja nokkuð vel til liðsins. Þetta er góður hópur leikmanna sem hafa leikið lengi saman og þekkja hvor annan vel. En hver þjálfari hefur sínar áherslur og ég á ekki von á öðru en að skipulagið muni eitthvað breytast," segir hann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×