Viðskipti innlent

Samskip kaupir Seawheel

Samskip hafa fest kaup á breska skipafélaginu Seawheel og hyggjast sameina reksturinn gámaflutningastarfsemi Samskipa í Evrópu. Áreiðanleikakönnun vegna kaupanna er nú lokið og einungis beðið eftir samþykki samkeppnisyfirvalda. Kaupverð fæst ekki gefið upp. Seawheel hefur yfir að ráða tólf gámaskipum sem sigla milli Bretlands, Spánar og fleiri hafna í Norður-Evrópu. Starfsmenn fyrirtækisins eru um 200 og eru höfuðstöðvarnar í Ipswich á Englandi. Velta Seawheel var á síðasta ári um 13 milljarðar króna. Eftir sameininguna hefur Samskip yfir 36 gámaflutningaskipum að ráða. Velta sameinaðs félags er 58 milljarðar og starfsmannafjöldi 1550. Ásbjörn Gíslason, forstjóri Samskipa, segir kaupin rökrétt framhald þeirrar stefnu sem mótuð hafi verið, en félagið keypti fyrr á árinu hollenska flutningafyrirtækið Geest: ,,Með því að sameina flutningakerfi þessara tveggja stærstu félaga sem áður kepptu í sjóflutningum milli Bretlandseyja og meginlandsins verður til öflug eining með geysilega sterka markaðsstöðu."





Fleiri fréttir

Sjá meira


×