Viðskipti innlent

Finnskur banki í sigtinu

Kaupþing banki hefur keypt tæplega tveggja prósenta hlut í finnska fjármálafyrirtækinu Sampo og er þar með þriðji til fjórði stærsti hluthafinn. Sampo er að stærstum hluta tryggingafélag, en samkvæmt heimildum beinist áhugi Kaupþings að bankastarfsemi félagsins. Markaðsvirði Sampo er hátt í sex hundruð milljarðar, en bankastarfsemin er metin á 150 til 200 milljarða króna. Sampo er stærsti finnski bankinn. Telja kaupþingsmenn áhuga hjá Sampo að selja frá sér bankastarfsemina þótt verðhugmyndir Sampo séu enn sem komið er í hærri kantinum. Kaupþing banki kom víðar við í fréttum á Norðurlöndum. Norska Kauphöllin stöðvaði viðskipti með tryggingafélagið Storebrand vegna orðróms um kaup Kaupþings í félaginu. Kaupþing hefur á stefnuskrá sinni að efla verulega starfsemi sína í Noregi og Finnlandi. Með kaupum á bankastarfsemi Sampo fengjust einnig mikilvæg tengsl við Eystrasaltsríkin og Rússland. Hreiðar Már Sigurðsson, forstjóri Kaupþings banka, vildi að svo komnu máli ekkert tjá sig um aðkomu bankans að Sampo og Storebrand.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×