Viðskipti innlent

Kaupendur styðja meirihlutann

 Vísir að nýjum meirihluta kann að vera að myndast í hluthafahópi Íslandsbanka. Viðskipti hafa verið með hluti í bankanum fyrir á fjórtánda milljarð síðustu daga. Talið er að á bak við hópinn sem er að kaupa standi fyrirtæki og einstaklingar sem vildu eiga samstarf við næststærsta hluthafa bankans, Milestone, undir forystu Karls Wernerssonar. Þar fer fremstur í flokki Jón Ásgeir Jóhannesson, forstjóri Baugs, ásamt félögum sem hann hefur átt samstarf við að undanförnu. Meðal þeirra sem nefndir eru í því samhengi eru Hannes Smárason, stjórnarformaður Flugleiða og Pálmi Haraldsson, kenndur við Feng. Líklegt er að fleiri fjárfestar sem verið hafa í samstarfi við Baug taki þátt í því að kaupa hluti í bankanum og styðja markmið Karls Wernerssonar innan Íslandsbanka. Karl var í upphafi talinn vera í samstarfi við Björgólfsfeðga þegar hann keypti stóran hlut í bankanum. Á daginn hefur komið að Karl er á eigin forsendum í fjárfestingu sinni í bankanum. Hann hefur að undanförnu átt í samstarfi við Baug og Pálma Haraldsson og kom með þeim að kaupum Iceland-keðjunnar þegar Baugur og tengdir aðilar keyptu Big Food Group. Samstarf Karls við Bjarna Ármannsson, forstjóra bankans, hefur gengið vel og meðal heimildamanna er talið að þeir séu arkitektarnir að komu Baugs og tengdra aðila í hluthafahóp bankans. Karl ásamt Jóni Ásgeiri vildi stofna sérstakt félag utan um eignarhald í bankanum og tryggingafélaginu Sjóvá. Markmiðið var að hlutur Straums í Íslandsbanka rynni inn í það félag. Samkomulag um það náðist ekki og telja Íslandsbankamenn að Landsbankinn hafi stöðvað þessi viðskipti Straums, en Landsbankamenn eru meðal hluthafa Straums. Innan Straums segja menn hins vegar að viðskiptin hafi ekki verið nægjanlega hagstæð fyrir Straum. Straumur er með mikla fjármuni bundna í Íslandsbanka og telja margir að hagsmunir Straums og Landsbankans fari ekki fullkomlega saman varðandi eignarhlutinn í Íslandsbanka. Sameiginlegu hagsmunirnir eru ef Straumi og Landsbankanum tekst að ná yfirhönd í Íslandsbanka. Hins vegar sitji Straumur uppi með margfalda áhættu á við Landsbankann ef ekki tekst að ná yfirráðum í bankanum. Ljóst virðist að fyrst ekki tókst að sannfæra Straum um að selja, sé áætlunin sú að safna bréfum í bankanum og tryggja sér með því öruggan meirihluta í stjórn bankans. Enginn virðist á þessu stigi vera tilbúinn að tjá sig um þessi viðskipti enda virðast hér á ferðinni fyrstu skref í stærri áætlun um yfirráð í Íslandsbanka





Fleiri fréttir

Sjá meira


×