Viðskipti innlent

Á­tök í Ís­lands­banka

Baugur og Hannes Smárason stjórnarformaður Flugleiða keyptu í gær hluti fyrir níu komma fimm milljarða í Flugleiðum. Alls er um að ræða fimm komma þriggja prósenta hlut í bankanum.

Lífeyrissjóðir Bankastræti 7 seldi allan hlut sinn, eitt komma átta prósent í bankanum, á genginum þrettán komma sex, fyrir um þrjá komma þrjá milljarða. Þá seldi Íslandsbanki einnig bréf en ekki er vitað hverjir aðrir. Straumur fjárfestingabanki er enn stærsti einstaki hluthafinn í bankanum með um tuttugu prósenta hlut en sá hlutur og hlutir annarra félaga sem tengjast Landsbankanum eru rúm þrjátíu prósent.

Morgunblaðið hefur greint frá því að Karl Wernersson hafi kynnt fyrir bankastjórn Íslandsbanka áform um að stofna eignarhaldsfélag ásamt Hannesi Smárasyni stjórnarformanni Flugleiða og Jóni Ásgeiri Jóhannessyni, sem yrði kjölfestufjárfestir í Íslandsbanka. Það var aðdragandi þess að Steinunn Jónsdóttir fyrrverandi eiginkona Hannesar Smárasonar seldi rúmlega fjögurra prósenta hlut sinn til Burðaráss sem jók áhrif félaga tengdum Landsbankanum enn frekar. Steinunn hafði áður verið höll undir núverandi meirihluta bankans með þá Bjarna Ármannsson og Einar Sveinsson í broddi fylkingar, líkt og Wernersbræður.

Hörð valdabarátta hefur verið milli þeirra og félaga tengdum Landsbankanum. Fundur verður í bankaráði Íslandsbanka þann fjórða júlí en þá kemur í ljós hvort boðað verður til hluthafafundar vegna breytinga í hluthafahópnum.. Það er ljóst að Karl Wernersson sem á ásamt systkinum sínum um þrettán prósenta hlut í bankanum, fer með úrslitavaldið um hver ræður í Íslandsbanka en hvort afstaða hans hefur breyst með þessu nýja bandalagi verður bara að koma í ljós.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×