Viðskipti innlent

Töldu Straum til­búinn að selja

Karl Wernersson boðaði samherja sína í bankaráði Íslandsbanka á fund í byrjun júní til að greina þeim frá áformum um að mynda kjölfestu í bankanum í samstarfi við Jón Ásgeir Jóhannesson og hugsanlega fleiri aðila.

Þetta gerði Karl í þeirri trú að samkomulag hefði náðst við Straum, stærsta hluthafa Íslandsbanka, um að selja hlut sinn inn í nýtt eignarhaldsfélag. Á móti léti hann sínar eignir í bankanum og Sjóvá þar inn.

Straumsmenn þverneita að svona samkomulag hafi verið gert. Þótt viðræður hefðu farið fram hefði öllum slíkum óskum verið hafnað.

Tvennt gerist eftir fundinn sem Karl boðaði: Steinunn Jónsdóttir ákveður að selja hlut sinn í Íslandsbanka og áform Straums, samkvæmt meintu samkomulagi, eru stöðvuð. Heimildarmenn Markaðarins segja Landsbankamenn hafa staðið fyrir því, enda með sterka stöðu innan Straums.

Straumi og Einari Sveinssyni, stjórnarformanni Íslandsbanka, var boðið að kaupa hlut Steinunnar. Staðan var metin þannig 5. júní að hlutur hennar hefði engin úrslitaáhrif á valdahlutföll í bankanum. Miðvikudaginn 8. júni seldi Steinunn svo Burðarási hlutinn.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×