Sport

Fimmtu umferð lýkur í kvöld

Þrír leikir fara fram í Landsbankadeild karla í dag og kvöld en þá lýkur 5. umferð. ÍBV tekur á móti KR í Eyjum kl. 17.00. Einar Hlöðver Sigurðsson, James Robinson og Steingrímur Jóhannesson eru allir meiddir og óvíst hvort þeir geti leikið með ÍBV í kvöld. Líklega munu FH-ingarnir Heimir Snær Guðmundssin og Pétur Óskar Sigurðsson geta komið við sögu hjá ÍBV í kvöld en þeir fóru í vikunni á lánssamning til Eyja þar sem þeir komast ekki í sterkan leikmannahóp Íslandsmeistaranna. Hjá KR er í fyrsta sinn í sumar enginn á meiðslalista svo vitað sé en fimm leikmenn sem hafa verið meiddir eiga að vera leikhæfir í dag. Það eru Bjarki Gunnlaugsson, Garðar Jóhannsson, Jökull Elísarbetarson, Gunnar Einarsson og Hondúras kantmaðurinn Helmis Matute. Þá hefur Einar Þór Daníelsson verið að æfa með KR-ingum undanfarið. Þessir sexmenningar léku t.a.m. með U23 ára liði KR síðasta mánudag og lék Einar allan leikinn í fínu formi. Það verður spennandi að sjá hvort hann hyggur á endurkomu með Vesturbæjarliðinu. Ekki liggja fyrir upplýsingar um ástand leikmanna hjá hinum liðunum fjórum sem etja kappi í kvöld en Keflavík tekur á móti spútnikliði Vals sem er með fullt hús stiga fyrir leikinn sem hefst kl. 19.15. Fylkir tekur á móti Grindavík í beinni útsendingu á Sýn kl. 20.00.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×