Sport

Ekki sama varnarlína gegn Möltu

Öll varnarlína íslenska landsliðsins í fótbolta sem hóf leikinn gegn Ungverjum í gær verður ekki með gegn Möltu. Þrír leikmenn eru í leikbanni og Pétur Hafliði Marteinsson ökklabrotnaði og gekkst undir aðgerð í morgun. Ballið byrjaði fljótlega í fyrri hálfleik þegar Grétar Rafn Steinsson lenti í hörðu samstuði við ungverskan leikmann. Grétar Rafn fékk smá heilahristing en hélt áfram til hálfleiks en þá var honum skipt út af. Þetta var bara rétt byrjunin. Pétur Hafliði Marteinsson ökklabrotnaði um miðjan fyrri hálfleik og gekkst undir aðgerð í morgun. Hann verður í gifsi í sex vikur og getur hugsanlega byrjað að æfa undir lok ágúst með liði sínu Hammarby í sænsku úrvalsdeildinni. Þá er óvíst hvort Gylfi Einarsson geti verið með en hann meiddist í upphafi síðari hálfleiks. Kristján Örn Sigurðsson, Indriði Sigurðsson og Ólafur Örn Bjarnason eru í leikbanni. Ólafur Örn fékk að líta tvö gul spjöld og síðan rautt. Hann var einstaklega óheppinn eins og aðrir leikmenn liðsins. Auðun Helgason, FH, og Valsmaðurinn Bjarni Ólafur Eiríksson voru valdir í hópinn og Helgi Valur Daníelsson kemur einnig inn. Ljósið í myrkrinu er að Heiðar Helguson er klár í slaginn eftir að hafa tekið út leikbann.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×