Sport

Ásdís fullkomnaði frábæra viku

Ásdís Hjálmsdóttir, tvítug frjálsíþróttakona úr Ármanni, fullkomnaði frábæra viku hjá sér á Smáþjóðaleikunum í Andorra í gær þegar hún tryggði sér gullverðlaun í kringlukasti. Þetta voru þriðju verðlaun Ásdísar á leikunum. Vikan hófst á því að Ásdís tvíbætti Íslandsmetið í spjótkasti á sjöunda Vormóti FÍRR (Frjálsíþróttaráðs Reykjavíkur) á Laugardalsvelli á laugardalsmorgninum, útskrifaðist sem stúdent og dúx frá Menntaskólanum við Hamrahlíð seinna um daginn, flaug síðan til Andorra á sunnudagsmorgunin þar sem hún vann þrjú verðlaun í þeim þremur greinum sem hún tók þátt í. Ásdís vann brons í kúluvarpi á þriðjudeginu, gull í spjótkasti á fimmtudeginum þar sem hún var aðeins fimm sentimetrum frá nýsettu Íslandsmeti sínu og setti auk þess Smáþjóðaleikamet og vann loks gull í kringlukastinu í gær. Það komu alls sex verðlaun á síðasta degi frjálsra íþrótta, fyrir utan fyrrnefnt gull Ásdísar þá unnu þeir Jón Arnar Magnússon (silfur) og Ólafur Guðmundsson (brons) báðir verðlaun í 110 metra grindarhlaupi, Þorsteinn Ingvarsson vann brons í þrístökki og loks vann Fríða Rún Þórðadóttir sín önnur bronsverðlaun á leikunum þegar hún kom þriðja í mark í 10000 metra hlaup en hún var einnig þriðja í 5000 metra hlaupi. Að lokum vann boðhlaupsveit karla brons í 4 x 100 metra hlaupi. Sveitina skipuðu þeir Þorsteinn Ingvarsson, Ólafur Guðmundsson, Halldór Lárusson og Jónas Hlynur Hallgrímsson. Stelpurnar enduðu í öðru sæti í heildarkeppninni en strákarnir þruftu að sætta sig við 3. sætið. Ísland fékk einnig verðlaun. Sigrún Nanna Karlsdóttir vann þriðju gullverðlaun tækvondófólk í gær þegar hún bar sigur úr býtum í -57 kg flokki en Ísland vann tvö gull á fyrri keppnisdeginum. Þórir Birgir Þorsteinsson komst i úrslitaleikinn í sama flokki hjá strákunum en varð að sætta sig við silfur. Guðmundur Stephensen varð síðan í þriðja sæti í einliðaleik karla í borðtennis en þetta voru þriðju verðlaun Guðmundar á leikunum, hann vann brons í liðakeppni og gull í tvíliðaleik. Ísland vann alls 73 verðlaun í Andorra og endaði í öðru sæti á eftir Kýpur sem vann 88 verðlaun og þar af 37 gull. Ísland vann 25 gull, 21 silfur og 27 bronsverðlaun á leikunum.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×