Erlent

Uppstokkun boðuð í Frakklandi

Jacques Chirac Frakklandsforseti sat í gær á rökstólum með ríkisstjórn sinni eftir að öruggur meirihluti franskra kjósenda hafnaði stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins í þjóðaratkvæðagreiðslu á sunnudag. Var fastlega búist við því að forsætisráðherrann Jean-Pierre Raffarin yrði látinn víkja, en úrslit atkvæðagreiðslunnar voru ekki síst túlkaðar sem vantraustsyfirlýsing á ríkisstjórnina. Talsmenn Chiracs sögðu að hann myndi tilkynna um uppstokkun í stjórninni í dag og flytja sjónvarpsávarp til þjóðarinnar í kvöld. Að mati franskra fjölmiðla eru þau Dominique de Villepin, núverandi innanríkisráðherra, Michele Alliot-Marie, núverandi varnarmálaráðherra, eða Nicolas Sarcozy, hinn metnaðarfulli formaður stjórnarflokksins, líklegust til að verða falið að taka við af Raffarin. Leiðtogar annarra Evrópusambandsríkja meltu í gær þá staðreynd að hið metnaðarfulla stjórnarskrárígildi sambandsins hefði nú strandað á Frakklandi, aðaldriffjöður Evrópusamrunans í fimmtíu ár. Öll aðildarríkin 25 þurfa að fullgilda sáttmálann til að hann geti gengið í gildi. Og nú virðist stefna í að á morgun muni hollenskir kjósendur einnig hafna sáttmálanum. Samkvæmt síðustu skoðanakönnunum ætlaði yfir 60 prósent Hollendinga að segja "nei" í ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu. Hollenski forsætisráðherrann Jan-Peter Balkenende skoraði á landa sína að láta afstöðu Frakka ekki hafa áhrif á sig. Jan Asselborn, utanríkisráðherra Lúxemborgar sem nú gegnir formennskunni í ESB, hvatti til "tímabils íhugunar" í kjölfar úrslitanna í Frakklandi. Slíkt gæti reynst gagnlegt til að Írar, Danir, Pólverjar og fleiri þjóðir sem til stendur að gangi einnig til þjóðaratkvæðis um sáttmálann, geti gert það í friði. Tony Blair, forsætisráðherra Bretlands, sagði of snemmt að segja til um hvort hætt verði við að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um staðfestingu sáttmálans í Bretlandi, en hann hafði áður boðað að slík atkvæðagreiðsla yrði haldin á næsta ári.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×