Erlent

Uppreisn í Gallaþorpinu

Höfnun öruggs meirihluta frönsku þjóðarinnar á stjórnarskrársáttmála Evrópusambandsins hefur valdið pólitískum landskjálfta í Frakklandi og sambandinu öllu. Úrslit atkvæðagreiðslunnar - 54,9 prósent á móti og 45 prósent með - voru niðurlægjandi fyrir Chirac og mikill skellur fyrir ríkisstjórn hans. Úrslitin setja líka framtíð Evrópusamstarfsins í talsvert uppnám. "Höfðinginn Aðalríkur stendur skakkur á skildi sínum," skrifar leiðarahöfundur svissneska blaðsins Neue Zürcher Zeitung um stöðu Chiracs. "Uppreisn í Gallaþorpinu! Ástríkur segir nei. Þjóðin hlýðir ekki leiðtogum sínum lengur," segir í leiðaranum. "Rómverjar, Brusselbúar og aðrir fylgjast stjarfir með og segja: Þessir Gallar eru klikk!" Chirac átti sjálfur frumkvæði að því að kalla til þjóðaratkvæðagreiðslunnar, en að frönskum stjórnlögum hefði þingleg afgreiðsla dugað. Fyrst eftir að forsetinn boðaði atkvæðagreiðsluna snemma í vor mældist öruggur meirihluti fyrir samþykkt sáttmálans, enda var markmið Chiracs að ljá eigin pólitísku arfleifð aukinn ljóma með því að fá þjóð sína til að lýsa með afgerandi hætti stuðningi við fyrstu "stjórnarskrá Evrópu" (eins og sáttmálinn hefur gjarnan verið nefndur í pólitískri orðræðu á meginlandinu). En svo snerist blaðið við og síðustu vikurnar áður en hinar rúmlega 42 milljónir franskra kjósenda voru kallaðar að kjörkassanum sýndu skoðanakannanir að nánast kraftaverk þyrfti til að "jáin" yrðu fleiri en "neiin". Þessar hrakfarir Chiracs minna á þegar hann boðaði árið 1997 til þingkosninga, skömmu eftir að hann var fyrst kjörinn forseti, í þeirri trú að pólitískir samherjar hans kæmu tvíefldir út úr þeim kosningum. Kosningarnar fóru hins vegar á allt annan veg og næstu árin varð Chirac að sætta sig við að starfa með vinstristjórn. Ýmsum þykir það heldur ekki auka hróður Chiracs að hann skyldi útiloka að segja af sér jafnvel þótt hans málstaður lyti í lægra haldi í þjóðaratkvæðagreiðslunni. Þykir pólitísk fyrirmynd hans, Charles de Gaulle, hafa sýnt meiri auðmýkt fyrir vilja kjósenda er hann sagði umsvifalaust af sér er hann tapaði máli sem hann skaut í þjóðaratkvæði á sínum tíma, árið 1969. Reyndar er ósigur fylgjenda sáttmálans ekki aðeins forsetans og ríkisstjórnarinnar, heldur forystu Sósíalistaflokksins einnig, sem stóð með stjórninni í baráttunni fyrir samþykkt sáttmálans. Hollendingar næstir Jean-Claude Juncker, forsætisráðherra Lúxemborgar sem gegnir formennskunni í ESB þetta misserið, og Jose Manuel Barroso, forseti framkvæmdastjórnarinnar í Brussel, lýstu yfir vonbrigðum með dóm franskra kjósenda, en sögðu að fullgildingarferlið héldi engu að síður áfram. Aðrar þjóðir sambandsins yrðu að afgreiða málið hver á sínum forsendum. Á morgun, 1. júní, ganga Hollendingar til þjóðaratkvæðis um sáttmálann og benda skoðanakannanir til að þeir séu enn staðráðnari í að hafna honum en Frakkar. Þótt atkvæðagreiðslan í Hollandi sé aðeins ráðgefandi blasir við að hafni kjósendur í tveimur stofnríkjum sambandsins sáttmálanum með afgerandi hætti verði honum ekki við bjargað. Slík niðurstaða myndi gera út um allar vonir sem fylgjendur sáttmálans gerðu sér ef til vill um að höfnun sáttmálans í einu eða tveimur af aðildarríkjunum 25 myndi ekki stöðva framgöngu hans, þar sem hægt yrði - að sáttmálanum fullgiltum í öllum hinum ríkjunum - að fá hann samþykktan fyrir rest í nýrri atkvæðagreiðslu í þessu eina eða tveimur löndum. Tæknilegar uppfærslur mögulegar Fyrir atkvæðagreiðsluna í Frakklandi var lögð á það áherzla, ekki sízt af hálfu forsvarsmanna Evrópusambandsins sjálfs, að ekki yrði um það að ræða að semja upp á nýtt um stjórnarskrársáttmálann. Það væri ekkert "Plan B" til. Í raun er það þó svo að raunhæft þykir að takast megi að koma vissum atriðum, sem varða tæknilega uppfærslu á starfsháttum og skipulagi sambandsins, í gildi þrátt fyrir að hið metnaðarfulla stjórnarskrárígildi komist aldrei til framkvæmda. Giuliano Amato, fyrrverandi forsætisráðherra Ítalíu, sem var í áberandi hlutverki á Framtíðaráðstefnunni svonefndu sem samdi drögin að stjórnarskrársáttmálanum, lagði til í blaðaviðtali í gær að mögulegt kynni að reynast að innleiða nokkur lykilákvæði sáttmálans þrátt fyrir að hann tæki sem slíkur aldrei gildi. Corriere della Sera hafði eftir honum þá líkingu að stjórnarskráin væri eins og dauðvona sjúklingur sem mætti "græða nokkur líffæri úr í Nice-sáttmálann". Sáttmálinn sem kenndur er við leiðtogafund ESB í suður-frönsku borginni Nice í árslok 2000 er sú uppfærða útgáfa stofnsáttmála sambandsins sem nú er í gildi og stjórnarskrársáttmálinn átti að taka við af. Í Nice-sáttmálanum voru þær breytingar gerðar sem brýnastar þóttu til að hægt væri að fjölga aðildarríkjunum úr 15 í 25, en hann inniheldur að grunni til samt þær leikreglur sem hannaðar voru fyrir hálfri öld fyrir upprunalega sex aðildarríki. Markmiðið með stjórnarskrársáttmálanum var enda fyrst og fremst að tryggja skilvirkni stofnana og ákvarðanatöku í stækkuðu Evrópusambandi, auk þess að bæta lýðræðislegt lögmæti og gegnsæi ákvarðanatökunnar. En hann er (eða öllu heldur: var) að sjálfsögðu málamiðlun ólíkra markmiða - milli þeirra sem vilja sjá ESB þróast lengra í átt að sambandsríki og hinna sem vilja tryggja til frambúðar að ESB verði aldrei meira en samstarfsvettvangur fullvalda þjóðríkja, milli hagsmuna smærri og stærri ríkja sambandsins, milli fátækari og ríkari ríkja þess, milli þeirra sem vilja að sambandið stuðli að aukinni markaðssamkeppni og hinna sem vilja beita því til að standa vörð um félagsleg réttindi, og þannig mætti lengi telja. Að mati Amatos væri skynsamlegast að svo komnu máli að leiðtogar aðildarríkjanna réðu nú ráðum sínum og reyndu að koma sér saman um hvernig koma mætti í gildi "fáeinum ákvæðum" úr stjórnarskrársáttmálanum sem samkomulag væri um að bezt gögnuðust til tæknilegrar uppfærslu á starfsemi sambandsins; lágmarksuppfærslu sem ekki væri nauðsynlegt að láta ganga í gegnum hið þunglamalega fullgildingarferli. Nefndi Amato í þessu sambandi sérstaklega embætti utanríkisráðherra ESB og eigin utanríkisþjónustu sambandsins. Þetta þyrftu þó allt að vera breytingar sem ekki fælu í sér neina eiginlega valdatilfærslu til hinna yfirþjóðlegu stofnana sambandsins.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×