Erlent

Eldgos í Mexíkó

Mikið eldgos hófst á mánudaginn í Colima-fjalli sem er 690 kílómetra norðvestur af Mexíkóborg. Enginn er þó talinn í hættu enda er mannabyggð fjarri fjallinu. Mikil sprenging markaði upphaf gossins og í kjölfarið myndaðist glóandi flikrubergsský sem geystist niður fjallshlíðarnar. Öskustrókurinn stóð rúma þrjá kílómetra upp í loftið og finna mátti hraunbombur í fjögurra kílómetra fjarlægð Enginn er talinn í hættu og ekki er vitað um neitt eignatjón af völdum öskufallsins enda eru næstu mannabústaðir langt í burtu. "Þetta eru öflugustu sprengingar sem við höfum mælt síðan 1991," sagði Tonatiuh Dominguez, jarðeðlisfræðingur á rannsóknarstöð í Colima-borg. Colima-fjall er 3.280 metra hátt. Það gýs með reglulegu millibili, síðast 1999. Árið 1913 varð í því gríðarmikið þeytigos og myndaðist þá rúmlega 500 metra djúpur gígur. Ösku rigndi þá í Guadalajara-borg sem er um 120 kílómetrum norðar.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×