Sport

Ósanngjarnt í Árbænum

KR-ingar unnu dramatískan og afar ósanngjarnan sigur á Fylkismönnum í lokaleik 1. umferðar Landsbankadeildar karla í knattspyrnu í kvöld. Sigurvin Ólafsson skoraði sigurmark Vesturbæjinga þegar 4 mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma. Lokatölur á Árbæjarvelli urðu 1-2. Hrafnkell Helgi Helgason kom heimamönnum í Fylki yfir strax á 5. mínútu úr vítaspyrnu. Kristján Finnbogason markvörður KR og maður leiksins var þó ekki langt frá því að verja spyrnuna sem hann fékk dæmda á eigið leikbrot. Á 17. mínútu gerðu Fylkismenn sjálfsmark þegar Valur Fannar Gíslason varð fyrir því óláni að skalla boltann í eigið mark eftir hornspyrnu KR-inga. Fylkismenn voru mun betri aðilinn í leiknum og áttu 24 marktilraunir á móti 6 marktilraunum KR-inga en munurinn lá í Kristjáni Finnbogasyni markverði sem hélt sínum mönnum á floti. Þorlákur Árnason þjálfari Fylkis var hundfúll í leikslok. "Ég skil ekki hvernig Kristján (markvörður) slapp við rauða spjaldið fyrir vítaspyrnudóminn." sagði Þorlákur í viðtali við Sýn eftir leikinn. Hann sagði Fylkismenn einnig hafa verið rænda löglegu marki í fyrri hálfleik. "Ég sá hann inni. Alveg pottþétt." bætti Þorlákur við. KR er með 3 stig eftir 1. umferð eins og FH, Valur, ÍA og Fram en ekkert jafntefli varð í umferðinni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×