Sport

Serbi með tannpínu leitar að liði

Það hefur ekki farið framhjá nokkrum manni að útlendingaflæðið í íslenska fótboltann er meira en nokkru sinni fyrr. Þessir menn eru að sjálfsögðu mjög misjafnir að gæðum og sumir þeirra hafa nánast ekkert fram að færa. Meðal leikmanna sem hér hafa verið að flækjast er serbneskur varnarmaður að nafni Branko Milicevic, sem flakkar milli liða í fylgd hins gamalkunna Mihajlo Bibercic. Þessi ágæti maður hefur mætt á æfingar hjá tveimur liðum í Landsbankadeildinni, en tók þó ekki þátt í æfingunum! Sigurður Jónsson, þjálfari Víkinga, hafði samband við kollega sinn, Þorlák Árnason hjá Fylki, og sagði honum frá leikmanninum. Árbæingar ákváðu síðan að skoða hann á æfingu félagsins. Fyrir æfinguna var leikmaðurinn mættur ásamt Bibercic en þeir félagar voru skyndilega gufaðir upp þegar æfingin var í þann mund að hefjast. Ásgeir Ásgeirsson, formaður meistaraflokksráðs karla hjá Fylki, sagði í samtali við Fréttablaðið að enginn vissi hvað hefði orðið af Milicevic. „Hann var mættur fyrir æfinguna en var svo hvergi sjáanlegur þegar hún var að hefjast. Við höfum ekkert heyrt frá honum og vitum ekkert hver ástæðan fyrir þessu skyndilega brotthvarfi hans var." Milicevic ætlaði síðan að mæta á æfingu hjá Keflvíkingum á þriðjudagskvöld en gat á endanum ekki tekið þátt í henni þar sem hann var illa haldinn af tannpínu. „Það er ólíklegt að við fáum þennan leikmann. Hann og Bibercic voru svona meira í kurteisisheimsókn hjá okkur og hann átti að fá að taka þátt í léttri æfingu en því miður varð ekkert af því þar sem hann var með tannpínu," sagði Ásmundur Friðriksson, framkvæmdastjóri Keflavíkur, um málið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×