Erlent

Mannréttindaráðherrann hættur

Enn og aftur er komið babb í bátinn í írösku stjórnarmynduninni. Þegar útlit var fyrir að skipað hefði verið í öll ráðherraembætti neitaði eitt ráðherraefnanna að taka við stöðu sinni. Íraksþing samþykkti í gær endanlegan ráðherralista Ibrahim al-Jaafari forsætisráðherra en samkvæmt honum fá súnníar fjögur ráðherraembætti til viðbótar við þau fjögur sem þeir þegar höfðu. Hina mikilvægu stöðu varnarmálaráðherra hreppti Saadoun al-Duleimi, sem áður vann í hinu alræmda öryggismálaráðuneyti Saddams Hussein en flúði svo til Sádi-Arabíu árið 1984. Hann er frá Anbar-héraði en þar hefur ólgan í landinu verið einna mest. Sjíar fá aftur á móti olíumálaráðuneytið og sest Ibrahim al-Uloum í þann stól. Í gær neitaði hins vegar súnníinn Hashim Abdul-Rahman al-Shibli að taka við stöðu mannréttindamálaráðherra þar sem hann vildi ekki fá embætti sitt út á það hvaða trúarhópi hann tilheyrði. Slíkar stöðuveitingar væru einungis til þess fallnar að breikka gjána á milli hinna ólíku hópa sem búa í landinu. Öll þessi togstreita þýðir að tíminn er að verða naumur fyrir ríkisstjórnina að semja stjórnarskrá en því á að vera lokið um miðjan ágúst.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×