Sport

Enski boltinn á lokaða sér rás

Íslenska sjónvarpsfélagið sem rekur Skjá einn, hefur ákveðið að setja á laggirnar nýja áskriftarstöð sem er tileinkuð enska boltanum. Þessi nýja stöð mun sýna frá fleiri knattspyrnuleikjum í ensku úrvalsdeildinni en þekkst hefur í íslensku sjónvarpi. Stöðin mun sýna samtímis frá fleiri en einum leik í einu á mismunandi rásum. Í tilkynningu frá Íslenska sjónvarpsfélaginu segir að í boði verði allt efni tengt enskri knattspyrnu, fréttir af liðum og leikmönnum, fallegustu mörkin og ítarlegir spjallþættir við sérfræðinga um enska boltann. Með tilkomu áskriftarstöðvarinnar flyst enski boltinn af dagskrá SkjásEins og segir í tilkynningunni að fótboltinn muni því ekki skarast við annað vinsælt afþreyingarefni á SkjáEinum. Allir leikir verða sendir út í stafrænum gæðum og munu myndgæði því verða eins og best verður á kosið. Kröfuharðir aðdáendur sem hingað til hafa þurft að sætta sig við að geta ekki valið á milli leikja í ensku úrvalsdeildinni, sem leiknir eru samtímis, geta nú valið þann leik sem heillar mest. Áskrifendur geta því gengið að því vísu að það knattspyrnulið sem höfðar mest til þeirra verði í sjónvarpinu viku eftir viku, það eina sem þeir þurfa að gera er að velja hvaða leik þeir kjósa að horfa á. Þá verður þjónusta við áhorfendur aukin til muna með ítarlegri fréttaskýringarþáttum um ensku úrvalsdeildina þar sem lengd þátta þarf ekki að taka tillit til hefðbundinnar dagskrár venjulegra sjónvarpsstöðva. Síminn mun sjá um dreifingu á efninu í gegnum dreifikerfi sitt. Ennfremur mun Síminn annast dreifingu á móttökubúnaði fyrir Íslenska sjónvarpsfélagið.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×