Innlent

Lögreglan í Keflavík göbbuð

Lögreglan í Keflavík fékk upphringingu í fyrrinótt frá manni sem sagðist vera í smábátahöfninni í Grófinni í þeim tilgangi að fyrirfara sér. Lögreglulið var umsvifalaust sent á staðinn en þegar það kom í höfnina var enginn þar. Þá hóf lögreglan að leita í öðrum höfnum í Reykjanesbæ til að losa sig við allan grun, en án árangurs. Í ljós kom að símtalið kom úr óskráðu símanúmeri og hringt hafði verið frá Reykjavík, greinilega í þeim tilgangi einum að narra lögregluna. Lögreglan lítur mál sem þessi mjög alvarlegum augum og hyggst reyna að komast til botns í málinu. Nokkuð annasamt var hjá Keflavíkurlögreglunni í fyrrinótt og þurfti hún að hafa afskipti af nokkrum ölvuðum einstaklingum og keyra einhverja heim sem höfðu sofnað á öldurhúsum bæjarins. Annars var rólegt að mestu hjá lögreglu um land allt í fyrrinótt.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×