Erlent

Bush réttir fram sáttahönd

George W. Bush, forseti Bandaríkjanna, sagðist í samtali við Silvio Berlusconi í gær harma skotárásina fyrir tveimur mánuðum sem dró ítalskan leyniþjónustumann til dauða. Nokkur spenna hefur ríkt í samskiptum Ítalíu og Bandaríkjanna eftir að bandarískir hermenn skutu ítalska leyniþjónustumanninn Nicola Calipari til bana er hann var í bíl á leiðinni á flugvöllinn í Bagdad með blaðakonuna Giuliana Sgrena sem mannræningjar höfðu haft í haldi. Niðurstöðum ítalskra og bandarískra rannsókna sem kynntar voru í vikunni bar ekki saman um tildrög atburðarins og töldu menn því að fleygur hefði verið rekinn á milli bandamannanna Bush og Berlusconi. Í gær hringdi hins vegar Bush í félaga sinn og kvaðst harma dauða Calipari, "hetjulegan þjón Ítalíu og mikils metinn vin Bandaríkjanna," að sögn talsmann Hvíta hússins. Leiðtogarnir hétu því að láta atvikið ekki spilla samskiptum þjóðanna. Skoðanakönnun sem Gallup gerði nýverið í Bandaríkjunum sýnir að sextíu prósent þjóðarinnar telur að innrásin í Írak hafi verið mistök. Stuðningur við innrásina hefur aldrei mælst minni.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×