Sport

Bergkamp vill nýjan samning

Hollenski framherjinn Dennis Bergkamp hjá Arsenal hefur látið í ljós áform sín um að leggja skóna á hilluna í lok þessa tímabils ef liðið býður honum ekki ásættanlegan eins árs samning fljótlega. Bergkamp er sagður vilja samning sem tryggir honum ákveðna veru í byrjunarliði Arsenal, en Arsene Wenger hefur æ meira verið að notast við hinn unga framherja Robin van Persie upp á síðkastið og það gæti sett strik í reikninginn hjá Hollendingnum. "Það er nokkuð síðan ég lét í ljós áhuga minn á að setjast að samningaborðinu og Wenger sagði að við myndum setjast niður fljótlega og taka ákvörðun. Mér finnst ég enn hafa nokkuð fram að færa, þrátt fyrir aldurinn og ég elska ennþá að leika knattspyrnu. Fyrir mig er það mikilvægasti þátturinn í að vilja halda áfram. Ég verð að ræða við stjórann og sjá hvað hann hefur í huga með liðið á næstu leiktíð og hvort er pláss fyrir mig í þeim áætlunum," sagði Bergkamp.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×