Innlent

Fráveitan inn í Orkuveituna

Lagt hefur verið til innan borgarkerfisins að gera Fráveituna að hluta af Orkuveitu Reykjavíkur og eru miklar líkur á að það verði að veruleika. Fráveitan kemur þá við hlið Vatnsveitunnar og Hitaveitunnar innan Orkuveitunnar og hefur sömu stöðu og þær í skipuritinu. Guðmundur Þóroddsson, forstjóri Orkuveitunnar, og Hrólfur Jónsson, sviðsstjóri framkvæmdasviðs, eru saman í nefnd sem á að kanna hagkvæmni þessarar breytingar. Guðmundur segir að sér lítist vel á þessa hugmynd, það sé algengt fyrirkomulag erlendis að vatnsveitur og fráveitur séu undir sama hatti en ekkert hafi verið ákveðið ennþá. Ef af flutningi fráveitunnar verður eru allar líkur á því að Sigurður Skarphéðinsson gatnamálastjóri verði fráveitustjóri enda verða starfsmenn fráveitunnar þá fluttir yfir og engin breyting gerð á þeim hópi. Fráveitan hefur fram að þessu verið hluti af Gatnamálastofu. Nýtt skipurit framkvæmdasviðs borgarinnar tekur gildi 1. júní og verður þá byrjað að vinna samkvæmt því.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×